Jæja, þá er ég mætt til Valladolid!
Lagði af stað til Spánar á fimmtudagskvöld. Ég flaug frá Malmö flugvelli svo að þetta var ágætis ferðalag fyrir mig. Rafnar kom bara með mér í lestina til Kaupmannahafnar flugvallar svo ég þurfti að kveðja hann í lestinni. Ekkert auðvelt... jafnvel þó að maður telji sig vera orðin nokkuð sjóaðan í því að kveðja og fara... það er svona að vera með þetta flakkara eðli.
Við lentum heilu og höldnu í Madrid um 12 leytið og fundum auðveldlega hostelið sem við vorum búnar að bóka. Ég hef nú gist á all nokkrum hostelum, en þetta slær allt út. Þetta voru 12 manna herbergi með kojum sem jugguðust svoleðis, venjuleg mannneskja gæti ekki snúið sér á hliðina án þess að verða sjóveik, hvað þá þegar Sólveig óhemjusvefndýr var mætt. Táfýlan var líka alveg yfirgnæfandi og sígarettufnykurinn læddist upp frá setustofunni alla nóttina... Fólk var ráfandi inn og út alla nóttina...já, s.s. ég svaf held ég bara ekki neitt þá nótt. Um morguninn þökkuðum við bara fyrir og tékkuðum út, treystandi á það að við myndum finna annan gististað. Það reyndist að vísu þrautin þyngri því það var kominn föstudagur, en að lokum fundum við ágætis low budget hótel sem átti herbergi laust fyrir okkur. Daginn eftir héldum við til Valladolid. Við komum á siestu tíma svo við enduðum á sportbar sem var opinn í nokkra tíma og horfðum á rugby. Get ekki sagt að ég skilji þann leikm en þetta er allavega mjög macho íþrótt. Allavega svo upp úr 18:00 opnaði hostelið aftur og við gátum tékkað okkur inn á krúttlega hostelið okkar og skoðað bæinn. Valladolid er æðisleg borg! Alveg ekta spænsk borg. Miðbærinn og svæðið í kring um háskólann er ofsalega flott. Það eru svo miklar skreytingar alls staðar. Fullt fullt af kaffihúsum sem eru þétt setin. Enn sem komið er hef ég ekkert nema jákvætt um þessa borg að segja. Það er líka svo ágætt að þetta sé ekki nema 300.000 manna borg, ekkert yfirgnæfandi stór. Á morgun ætla ég svo að kaupa mér símakort og reyna að hringja út um allt út af íbúðum... en við fótum út um allan bæ í dag og söfnuðum númerum af íbúðarauglýsingum. Vonandi finnum við eithvað sem fyrst... því ekki tími ég að búa á hosteli endalaust. Nú er komin tími fyrir smá siestu blund hjá mér.
Hasta luego
Engin ummæli:
Skrifa ummæli