þriðjudagur, mars 21, 2006

20. janúar 1983 ákváðu tvær stúlkur að koma í heiminn. Það hefur heldur betur verið fjör á fæðingadeildinni og þessar stöllur náðu greinilega vel saman. Þær höfðu nú ekki mikið samband næstu árin, en það var alltaf einhver tengsl á milli fjölskyldnanna.. Mamma annarar og pabbi hinnar unnu saman um tíma og bræður stúlknanna áttu samleið um tíma. Svo kom að því að þessar stúlkur sem uxu upp í sama bæjarfélagi fóru í menntaskóla, vildi svo til að það var sami skóli. Stúlkurnar fundu saman á ný og fundu það út að þær ættu sama afmælisdag... en mundu samt ekkert eftir hvorri annari. Þær urðu ágætis vinkonur á ný. Svo kom að því að menntaskólanum lauk og önnur stúlkan ákvað að flytja til útlanda til að stunda háskólanám. Ekki leið á löngu þangað til hin fylgdi á eftir til sama lands. Já alla vega ef þið eruð ekki búin að átta ykkur þá er ég að tala um mig og Guðrúnu Ösp. Ég get ekki skrifað meira af sögunni því að restin er enn óskrifuð, en eitt veit ég. Við Guðrún erum að fara að vinna saman í Wunderwear og næsta haust munum við vera í sama skóla, því að Guðrún ætlar að fara í sama nám og ég var í á síðasta ári og ég tek eina önn í Hróaskeldu. Ég er nú ekki svona manneskja sem pælir mikið í stjörnumerkjum, en það er svolítið gaman að velta þessu fyrir sér í þessu samhengi. 20. janúar er dagur þar sem það skiptist á milli Steingeitar og Vatnsbera. Ég fæddist seinni part dags og Guðrún að mér skilst fyrri part dags. Gæti ekki verið að það sé bara eitthvað til í þessu... við erum svo ólíkar á mörgum sviðum... en samt sem áður líkar á öðrum. Ég mundi segja að við séum með ólíka skapgerð, en það hefur komið fyrir að við hittumst og erum þá næstum því alveg eins klæddar... höfum meira að segja verið spurðar að því hvort að við værum tvíburar...hahaha.. Anyways... ég fór bara að pæla í þessu á leiðinni heim úr atvinnuviðtalinu í Wunderwear :) Hvað er í gangi? Stjörnumerki... tilviljun ... ??? Kannski er ég bara að tína eithvað út og búa til ... alltaf gaman að pæla í einhverju öðru þegar maður á að vera að vinna verkefni.

sunnudagur, mars 19, 2006

Enginn sá neitt athugavert við síðustu færslu?... Ég skal þá segja ykkur hvað það var.
Sko málið er það ég var nýbúin að horfa á 13. þáttinn í Prison Break og var að brenna yfir úr spenningi, þar af leiðandi notaði ég orðið "spennandi" svona u.þ.b. 30 sinnum... en engum fannst neitt athugavert við það.
Ég er bara búin að vera ein heima mest megnis síðustu daga. Rafnar ver öllum stundum úti í skóla að vinna í einhverju verkefni. Ég er því bara búin að vera að reyna að hvíla mig og safna kröftum fyrir næstu 10 daga törn í skólanum.
Annars var planið í gær að hitta Anne Marie og fara í gönguferð í Dyrehaven og á kaffihús... það misheppnaðist svolítið. Við vorum búnar að mæla okkur mót á Østeport á ákveðnum tíma og ætluðum að taka lestina saman til Klampenborg. Já svo mæti ég... og hún líka... nema hvað að við biðum eftir hvorri annnari í hálftíma, og ég leitaði út um allt og hún líka. Auðvitað hafði ég gleymt símanum mínum heima svo að ég gat ekki hringt í hana né hún náð í mig. Það endaði með því að við fórum báðar heim, án þess að hafa hitt hvora aðra. Ég veit ekki hvernig þetta var mögulegt. Við ákváðum nú samt að gera aðra tilraun til að hittast í gærkvöldi, og það heppnaðist. Við fórum á eithvað mjög sérstakt kaffihús á Istegade, helmingurinn af kaffihúsgestunum var mjög svo dubious. Við héldum að þetta ætti að vera týpískt Vestebro peepz hang out place, en ég veit ekki. það var meira af dópistum og pakki en við bjuggumst við. Við sátum nú samt þar í góða stund og spiluðum bakkamon.
Ég byrja svo í 10 daga heimaprófi á morgun. Ég er svo þakklát fyrir þessi heimapróf því ég hata ekkert meira en svona próf þar sem maður situr í 3-4 tíma og þarf að skrifa og skrifa allt sem maður kann. Þetta er nú samt sem áður ansi strembið svona heimapróf. Maður þarf náttúrlega að halda sig að verki og leggja mikla vinnu í þetta. Maður losnar samt við prófkvíðann sem skemmir ótrúlega fyrir.
Hef víst ekki meira að segja í þetta skiptið. Lifið heil.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Spennandi blogg

Ég læt undan þrýstingi og byrja aftur. Þetta er líka búin að vera ágætis pása. Ég var bara orðin svo rosalega löt við að blogga...
Alla vega.
Þessi vika er búin að vera alveg æsispennandi. Ég skilaði inn Erasmus umsókninni minni... úff en sú mæða: Alls konar eyðublöð sem ég þurfti að fylla út, og skrifa bréf sem átti að vera bæði á ensku og spænsku (ég er nú svo heppin að eiga góða að, fékk hjálp hjá Hildi við spænskuna) og CV á ensku og spænsku. Prenta út allt þetta og einkunnir í mörgum eintökum. Þetta var alveg heill bunki af blöðum sem ég skilaði. Þá er bara spennandi hvert ég verð sett. Ég sótti um háskólann í Granada, Murcia og Vallodolid. Mér fannst þeir mest spennandi. Ég er nú ekki að fara fyr en eftir ár. Spennó spennó :) Dagurinn sem skilafresturinn rann út var nokkuð spennadi. Auðvitað áttum við að skila einhverju voða spennandi hópverkefni og halda fyrirlestur.... já það var smá taugatrekkingur í hópnum. En allt gekk að lokum. Það sem stendur hæst í spenningnum í þessari viku er það að ég er búin að vera að taka smá Prison Break session... þeir sem þekkja mig vita að mér finnst best að horfa á sjónvarpsþætti í stórum skömmtum, taka marga í einu. Ég byrjaði að horfa á Prison Break á sunnudaginn og í dag var ég að klára 13. þáttinn... ég sat í gær, frá því að ég kom heim úr skólanum, þangað til ég fór að sofa og glápti, svo kláraði ég síðasta þáttinn núna áðan og blóðþrýstingurinn á ekki eftir að jafna sig í bráð. En lucky me, það kemur út nýr þáttur 20. mars.
Ég er komin í helgarfrí, enginn skóli á morgun... er yfirleitt í fríi á föstudögum þessa önn. Ætli ég reyni ekki mitt besta samt að dröööslast á bókasafnið og lesa eitthvað... jú það er að koma að heimaprófi. 20. mars fæ ég tvö spennandi ritgerðarefni og fæ einhverja daga til að skrifa 10 bls. ritgerð. Það verður bara spennandi.
Framundan er spennandi helgi, hún er svo spennandi af því að ég hef ekki hugmynd um hvað mun gerast, engin plön ennþá... so stay tuned, það kemur annað spennandi blogg á næstunni.

P.s. Sjáið þið eithvað athugavert við þessa færslu?