föstudagur, febrúar 23, 2007

Fyrsta heila vikan í skólanum búin. Mjög áhugaverð vika mundi ég segja. Það má eiginlega segja að ég sé lögð í einelti af kennurunum. Ég veit ekki hvað það er, kannski er það Skandínavískt útlit mitt, ... ég veit eiginlega ekki hvað það er, en í hverjum tíma sem ég hef farið í hefur kennarinn beðið mig um að tala, tjá mig um skoðanir mínar á hinu og þessu, sama hvert umræðuefnið er, sama í hvaða tíma. Allir kennarar sem ég hef verið hjá muna nafnið mitt... ég hef aldrei vitað annað eins. Ég er venjulega alltaf með helling af Erasmus stúdentum, en það er bara ég sem lendi í þessu. Þetta er nú allt í lagi í kúrsum sem eru á ensku, en þegar ég er í Historia de integracion de Europa, sem er á spænsku, þá vandast málin. Fyrir það fyrsta má ég hafa mig alla við til að skilja hvað kennarinn er að segja, en svo þarf hún reglulega að heyra álit mitt á hlutunum.... og þá verð ég eldrauð í framan hjartað fer á fullt... Hvernig á ég að geta svarað á spænsku einhverri spurningu sem ég skil eiginlega ekki og allir í fyrirlestrinum eru að glápa á mig! Annars eru kúrsarnir sem ég er í ekkert gífurlega erfiðir. Þeir beita öðrum aðferðum við kennsluna hérna en þeim sem ég hef kynnst í Svíþjóð og Danmörku. Þetta líkist kannski svolítið menntaskólanum heima. Maður þarf allavega ekki að hugsa svo mikið sjálfur, bara skrifa niður eftir kennaranum og læra. Það er áhugavert að sjá muninn. Svona er skólinn.
Ég er ennþá með þetta bévítans kvef.. þetta ætlar bara engan enda að taka. Það er líka búið að vera blautt og frekar kallt hérna. Ég vona nú að næsta vika verði betri, heilsufarslega og veðurfarslega. Um helgina er ég að hugsa um að skella mér á handboltaleik! Það er stórleikur í Champions league. BM Valladolid á móti Gummersbach. Ég veit reyndar ekki alveg hvorum megin ég á að standa. Valladolid megin, því ég er búin að búa hérna í tæpan mánuð, eða Gummersbach megin því þar er slatti af íslendingum að fara að spila, svo ég tali nú ekki um þjálfarann... Nei, ég held að þetta verði ekkert erfitt val, auðvitað held ég með með íslendingaliðinu. Róbert, Guðjon Valur, Sverri og Alfreð... ekki slæmt teymi.
Svo fer Rafnar alveg að koma til mín. Bara nokkrir dagar í það! Get ekki beðið! Þá getur hann loksins séð allt sem ég er búin að vera að segja honum frá. Hann þarf auðvitað að koma með alveg hellinga af drasli til mín, þar sem ég tók aðeins eithvað um 20 kíló með mér þegar ég kom. Allavega ætla að pósta þetta áður en internetið dettur út aftur.
A luego

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Nú er ég vonandi öll að koma til, enda búin að vera lasin alveg nógu lengi. Þetta leiðindakvef virðist þó ekkert vera að fara, en það verður bara að hafa það. Ég á helling eftir af snítiklútum. Ég er búin að vera mjög einbeitt að því að láta mér batna í dag og í gær. Í gær fór ég nú bara ekki út fyrir hússins dyr og í dag lá ég upp í rúmi frameftir degi, þegar ég fór fram úr, leið mér bara þokkalega loksins og kíkti aðeins út. Fórum á netkaffi (af hverju kallar maður þetta netkaffi?... það er ekki einu sinni hægt að fá kaffi þarna) og á kaffihús og fengum okkur eithvað í gogginn.
Framundan er svo bara skóli skóli!
Byrja í spænsku í fyrramálið, fer í einhverja fleiri tíma líka. Svo eru mamma og bróðir Kajsu að koma hingað á morgun. Okkur er svo öllum boðið í afmæli til Sabine á þriðjudaginn... já maður er byrjaður að eiga eithvað sósíal líf hérna.
Ég var að horfa á lagið sem vann í íslenska eurovisioninu... ég get sagt ykkur eitt, það er allavega mun betra en öll lögin sem tóku þátt hérna á Spáni!!! Mér líkaði reyndar bara mjög vel við lagið og flutninginn hjá Eiríki. En spænsku lögin, æ þetta er bara allt annar menningarheimur, hver veit nema að ég geti lært að meta þessa tónlist.

föstudagur, febrúar 16, 2007

Hæææ
Loksins gat ég stolist inn á internet hjá einhverjum nágrananum. Við höfum stundum getað stolist inn á það ... en aðra daga virkar það bara engan veginn. Mér er bara búið að leiðast síðustu daga. Ég er búin að vera lasin. Fyrst var mér illt í hálsinum og svo fékk ég hita... núna er nefið á mér alveg stíflað. Ég er því að mestu leiti búin að vera heima.
Þrátt fyrir slappleika hef ég þó þurft að mæta í skólann. Það var kynningarfundur á miðvikudaginn fyrir okkur skiptinemana.. allt á spænsku auðvitað... og viti menn.. ég held bara að ég hafi náð öllum skilaboðunum. Svo seinna um daginn var spænskupróf... svona til að testa hvar við stæðum í spænskunni. Ég er meðalgóð, svo ég fer í millihópinn. Ég vil kalla mig nokkuð góða, sérstaklega þar sem að það er langt síðan ég var að læra spænsku af einhverri alvöru.
Ég mætti síðan í fyrsta tímann minn í dag. Enskar bókmenntir og póstmódernismi... nokkuð áhugavert.. kennarinn var alveg eins og Magga danska!! og frekar fyndinn karakter! Svo prófa ég fleiri kúrsa í næstu viku. Ég get alveg dregið það til 28. febrúar að velja kúrsa.. en það væri nú ágætt að fá þetta á hreint sem fyrst. Maður fær svolitla special treatment af því að maður er Erasmus stúdent.
Annars er ég farin að falla til hérna í Valladolid. Það er svo gaman að sjá hvað það eru allt aðrir siðir hér, heldur en í Norður Evrópu. Fólk borðar kökur í morgunmat, stoppar helst ekki á kaffhúsum nema í 10 mínútur, borðar ekki nammi, (það er valla hægt að kaupa neitt nammi hérna). Sefur um miðjan daginn, borðar kvöldmat í fyrsta lagi klukkan 9, vakir fram eftir öllu...fer með börnin sín á krárnar. Það er margt öðruvísi hér.
Þá er þetta gott í bili.
A luego!

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Thá er ég flutt inn í íbúd í midbae Valladolid. Vid erum ekki med internet... allavega ekki enn sem komid er og eg veit ekki alveg hvernig tad fer. Vid Kajsa erum búnar ad eignast eina vinkonu. Thýsk stelpa sem heitir Sabine, hùn er skiptinemi fra Austurrískum háskóla. Vid erum búnar ad vera ad koma okkur fyrir, kaupa rúmfot og teppi... ekki saeng... heldur teppi ja. Vid byrjum svo i skolanum i naestu viku... en samt held eg ekkert fyrir alvoru fyr en i tharnaestu. Vid erum ekki einu sinni bunar ad velja kursa. Tad gengur allt frekar haegt fyrir sig herna, folk er ekkert ad stressa sig neitt of mikid. Eg a erfitt med ad venjast siestunni. Mer leidist svo mikid a milli 2 og 5.. veit ekkert hvad eg a af mer ad gera, en aetli madur fai ekki nog ad gera tegar skolinn byrjar. Eg aetla ekki ad hafa tetta lengra nun. Eg a mjog erfitt med a skrifa a tessa tolvu herna a internetkaffinu.... eg aetla ad fara a fullt a morgun og reyna ad finna ut hvad er haegt ad gera med internet.
Hasta luego

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Jæja, þá er ég mætt til Valladolid!
Lagði af stað til Spánar á fimmtudagskvöld. Ég flaug frá Malmö flugvelli svo að þetta var ágætis ferðalag fyrir mig. Rafnar kom bara með mér í lestina til Kaupmannahafnar flugvallar svo ég þurfti að kveðja hann í lestinni. Ekkert auðvelt... jafnvel þó að maður telji sig vera orðin nokkuð sjóaðan í því að kveðja og fara... það er svona að vera með þetta flakkara eðli.
Við lentum heilu og höldnu í Madrid um 12 leytið og fundum auðveldlega hostelið sem við vorum búnar að bóka. Ég hef nú gist á all nokkrum hostelum, en þetta slær allt út. Þetta voru 12 manna herbergi með kojum sem jugguðust svoleðis, venjuleg mannneskja gæti ekki snúið sér á hliðina án þess að verða sjóveik, hvað þá þegar Sólveig óhemjusvefndýr var mætt. Táfýlan var líka alveg yfirgnæfandi og sígarettufnykurinn læddist upp frá setustofunni alla nóttina... Fólk var ráfandi inn og út alla nóttina...já, s.s. ég svaf held ég bara ekki neitt þá nótt. Um morguninn þökkuðum við bara fyrir og tékkuðum út, treystandi á það að við myndum finna annan gististað. Það reyndist að vísu þrautin þyngri því það var kominn föstudagur, en að lokum fundum við ágætis low budget hótel sem átti herbergi laust fyrir okkur. Daginn eftir héldum við til Valladolid. Við komum á siestu tíma svo við enduðum á sportbar sem var opinn í nokkra tíma og horfðum á rugby. Get ekki sagt að ég skilji þann leikm en þetta er allavega mjög macho íþrótt. Allavega svo upp úr 18:00 opnaði hostelið aftur og við gátum tékkað okkur inn á krúttlega hostelið okkar og skoðað bæinn. Valladolid er æðisleg borg! Alveg ekta spænsk borg. Miðbærinn og svæðið í kring um háskólann er ofsalega flott. Það eru svo miklar skreytingar alls staðar. Fullt fullt af kaffihúsum sem eru þétt setin. Enn sem komið er hef ég ekkert nema jákvætt um þessa borg að segja. Það er líka svo ágætt að þetta sé ekki nema 300.000 manna borg, ekkert yfirgnæfandi stór. Á morgun ætla ég svo að kaupa mér símakort og reyna að hringja út um allt út af íbúðum... en við fótum út um allan bæ í dag og söfnuðum númerum af íbúðarauglýsingum. Vonandi finnum við eithvað sem fyrst... því ekki tími ég að búa á hosteli endalaust. Nú er komin tími fyrir smá siestu blund hjá mér.
Hasta luego